Undanfarin ár hefur DNG unnið að hönnun og þróun á nýrri færavindu sem komin er á markað. Nýja færavindan fékk nafnið R1.
Þó C6000i færavindan hafi staðið fyllilega fyrir sínu og geri enn þá þá var tekin sú ákvörðun að endurhanna rafbúnað, samskiptamöguleika, hugbúnað og fleiri þætti færavindunar og varð það grunnur að hönnun upphaflega C7000i hugmyndavindunnar sem síðar breyttist í að vera nefnd R1 vegna mikilla breytinga sem urðu á ýmsum þáttum frá hugmyndinni að C7000i og að hinni endanlegu R1 færavindu. C6000i hefur núna verið í framleiðslu í liðlega 27 ár og eru margar af þeim færavindum sem framleiddar voru árið 1995 enn í fullri virkni.
R1 færavindan er arftaki C6000i færavindunnar. Sömu fyrirfram skilgreindu veiðikerfi eru í R1 og í gömlu C6000i en samskiptamöguleikar eru allt aðrir, meðal annars er hægt að stýra færavindunni í gegnum síma. Wi-fi tengimöguleikar eru líka nýjung og með þeirri uppfærslu getum við hjá DNG uppfært færavindurnar í gegnum internetið, beint frá verkstæðinu okkar á Akureyri. Rafeindahlutir eru nýjir auk hugbúnaðar, skjás og fleiri þátta.
Með nýju R1 færavindunni kemur einnig nýr Reelmaster hugbúnaður, og verður hann gjaldfrjáls á vefsíðunni okkar. Hægt er að tengja bæði C6000i og R1 við Reelmaster.