Uppsetning og ræsing

Festing færavindunnar

Fótur færavindu passar í venjulegt eins tommu vatnsrör. Heppilegast er að hafa festinguna úr ryðfríu stáli.  Rörið verður að vera vel fest (boltað niður).

Rafmagn

Rafmagnskapallinn ætti að vera af hæfilegri lengd. Í kaplinum eru fjórir vírar, tveir 4 mm2 aflvírar og tveir 1,5 mm2 samskiptavírar.  Afl vírarnir eru rauður og svartur.  Rauði vírinn er fyrir jákvæða spennu (plús) og sá svarti er fyrir neikvæða spennu (mínus).  Færavindan á að vera tengd í tengikassa sem fenginn er hjá DNG eða umboðsmönnum.  Í tengikassanum eiga að vera tvöföld sjálfvör fyrir hverja færavindu ásamt yfirspennuvörn.  Sjálfvörin eiga að vera af B10 gerð (10A, fljótt).

Samskiptavírarnir tveir eru tengdir í tengibretti í tengikassanum.  Sá brúni tengist í annan pólinn á tengibrettinu en sá blái í hinn.  Fyrir frekari útskýringu, sjá tengimynd á hérna.

Athugið:  Öfug tenging aflvíra er ekki skaðleg fyrir færavinduna en hún mun þó ekki vinna fyrr en rétt hefur verið tengt.  Ef færavindan kveikir ekki á skjánum athugið þá hvort rétt hefur verið tengt.

Ræsing færavindunnar

Þegar færavindan hefur verið fest og tengd við rafkerfið þá er kveikt á henni með sjálfvarinu (eða auka rofa).  Færavindan þarf nokkrar sekúndur til að framkvæma prófun á rafeinda hlutanum en birtir síðan útgáfunúmer forrits og raðnúmer sitt og útgáfunúmer forrits í u.þ.b. 2 sekúndur.  Að þessu loknu birtist skjásíða eitt.  Nauðsynlegt er að snúa girnishjólinu handvirkt allt að einum hring til að setja mótorinn í upphafsstöðu.  Við það fer færavindan í stopp stöðu og ekki er lengur hægt að snúa hjólinu.

Athugið:  Mótorinn tekur ekki við sér fyrr en girnishjólinu hefur verið snúið.  Það gerist, hins vegar, af sjálfu sér þegar sökkunni er slakað út.

Yfir- og undir spenna

Ef spennan í rafkerfinu fer yfir u.þ.b. 32V þá slær yfirspennuvörnin út sjálfvarinu í tengikassanum sem aftengir færavinduna frá rafkerfinu. Hinsvegar ef spennan verður of lág (lægri en 10V í 12V kerfi, eða lægri en 20V í 24V kerfi) þá blikkar spennumælingin á skjánum og færavindan flautar viðvörunar hljóði.  Ef spennan heldur áfram að lækka þá hættir færavindan að lokum að vinna.

Þetta skaðar hins vegar ekki færavinduna en getur haft skaðleg áhrif á rafgeymana sem að færavindan er tengd í.