Skjásíða fimm – Veiðikerfi

DNG

Þetta veiðikerfi er grunnkerfið frá DNG og þetta veiðikerfi er virkt þegar færavindan er tengd við rafmagn í fyrsta sinn.

Ef þú lendir í vandræðum og veist ekki hvaða stillingar eru virkar, getur þú endursett allar stillingar sem varða veiðikerfin með því að velja þetta veiðikerfi.

Beituveiði

Þetta kerfi er notað þegar beita er notuð á öngla í stað gúmmís.  Færavindan stoppar smá stund efst og neðst í hverju keipi, og keipið er hægt og stutt.  Fisknæmi er lágt stillt.

Ufsaveiði

Ufsaveiði byggir á hröðu keipi og hátt stilltu fisknæmi.  Þar sem ekki er líklegt að fiskurinn losni af krókunum er notað kraftmikið upptog til þess að auka afköstin.

Tröppukeip

Þetta kerfi er svipað beituveiðinni en í stað þess að keipa upp og niður, þá keipar færavindan upp í ákveðnum fjölda skrefa (sjá TRÖPPUFJÖLDI) og bíður aðeins við hverja upp hreyfingu.  Þegar upphreyfingunni er lokið rennir færavindan færinu aftur niður á það dýpi þar sem fyrst var keipað og byrjar upp á nýtt.

Smokkfiskaveiði

Þetta kerfi er mjög frábrugðið öðrum veiðikerfum. Það helgast af því að aðferðin við smokkfiskveiðar er mjög frábrugðin hefðbundnum aðferðum við veiðar.  Frekari leiðbeiningar eru að finna í kaflanum SKJÁSÍÐA EITT – Smokkfiskstillingar.

Makrílveiði

Þetta kerfi svipar til smokkfiskveiðikerfisins og er notað við veiðar á makríl með keflum og slítara. Sjá SKJÁSÍÐA EITT Makríl stillingar.

Færeyskt kerfi

Veiðikerfi fyrir mismunandi stopptíma. Stopp í 10 sekúndur þegar keip er í uppstöðu.

Spil

Kerfi fyrir hífingu á línu. Keip er gert óvirkt og færavindan skiptir á milli hífingu og stoppstöðu þegar ýtt er á stjórntakka.

Skotland

Sérstakt makrílkerfi fyrir Skotland.

Bremsa

Þetta kerfi er frábrugðið hefðbundnu kerfi að því leiti að færavindan er ekki keyrð út heldur er mótorinn látinn halda lítillega á móti og sakkan látinn draga línuna út. Það hvað mótorinn heldur mikið á móti er hægt að stilla á samskonar táknmynd á skjásíðu tvö. Þegar þetta kerfi er notað er slakaskynjari ekki notaður heldur er þess í stað botn fundinn með því að sjá hvenær línan hættir að renna út.

Botnleit

Leitarsvæðið er frá botni og hálfa leið að yfirborði sjávar.  Gervibotn má setja inn til að breyta neðri mörkum leitarsvæðisins.

Yfirborðsleit

Þetta kerfi er eins og fyrsta leitarkerfið nema hvað gervibotn er sjálfvirkt settur inn átta keiplengdum frá yfirborði.  Síðan er leitað þaðan og að yfirborði sjávar.  Ef dýpi að botni er minna en átta keiplengdir, er gervibotninn settur þar sem botn finnst og í hvert skiptið sem sakkan nær botninum þá er gervibotninn stilltur samkvæmt því.

Alleit

Þetta leitarkerfi leitar frá botni að yfirborði sjávar.  Ef gervibotn er inn settur er leitað frá honum að yfirborði sjávar.

Eigin kerfi

Notandinn getur geymt sínar eigin stillingar í eigin kerfi 1 til 5.  Þetta er gert á þann hátt að bendillinn er fluttur á táknmynd þess kerfis sem nota á (1 – 5) og ýtt á NIÐUR takkann.  Þá skráir færavindan allar þær stillingar af skjásíðu eitt og einnig gerð keiplags í minni.  Eftir þetta er hægt að kalla fram þessar stillingar á sama hátt og önnur veiðikerfi þ.e. með því að færa bendilinn yfir táknmyndina og ýta á UPP takkann.

Ef eigið kerfi er virkt birtist táknmynd þess á sama stað og táknmynd annarra veiðikerfa á skjásíðu eitt.