Skjásíða þrjú – Ýmsar stillingar

Stoppa í núll

Þessi stilling segir færavindunni að stoppa um leið og dýptarmælirinn nær núlli þegar hún er að draga færið inn.  Ef gildið er 0 dregur færavindan línuna inn þar til stopphringurinn kemur upp að trissunni. Ef stillt er á 1, þá stoppar um leið og færavindan fer í 0.

Birtustig

Ef þessi stilling er sett á 10, er kveikt á hæstu baklýsingu í skjánum. Því minni sem talan verður því minni birta kemur frá skjánum. Þetta er auðvitað nytsamlegt þegar veitt er í myrkri og getur stundum gert skjáinn læsilegri við aðrar aðstæður.  Grunngildi þessarar stillingar er 10.

Aflstuðull

Þessi stilling stjórnar mýktinni við upptogið.  Því lægra sem gildi hennar er því mýkra er upptogið.  Aflstuðulinn er hægt að stilla á bilinu frá 0 til 10 en grunnstillingin er 3.

Sem dæmi um hvernig aflstuðuls stillingin vinnur, skulum við setja sem svo að gildi hennar hafi verið stillt á 3.  Nú notar færavindan 30% af aflinu sem stillt hefur verið með upptogsaflinu (sjá hérna) þegar hraðinn er 0 rpm og 100% þegar hraðinn er 500 rpm (sjá mynd).  Á öðrum hraða en þessum ákvarðast aflið af ímyndaðri línu á milli þessara tveggja gilda.  Til dæmis þegar hraðinn er 250 rpm þá yrði aflið 65%.

Áhrifin eru þau að ef aflstuðullinn er lágt stilltur t.d. á 0 – 5, þá dregur færavindan færið inn hægt og rólega þegar einhver þyngd er á línunni en hratt og kröftuglega ef svo til engin þyngd er.  Ef aflstuðullinn er stilltur á 10 þá notar færavindan fullt afl við hvaða hraða sem er.

Annar mikilvægur eiginleiki þegar þessi stilling er höfð lág (3 – 5) er að dempa ölduhreyfingar þ.e. þegar báturinn lyftist á öldutoppi þá eykst togið en færavindan hægir á sér á móti þannig að fiskurinn er dregin á jöfnum hraða upp.

Flauta

Ef þessi stilling er sett á 1, mun færavindan gefa hljóðmerki þegar fiskur kemur á færið og svo aftur þegar færavindan kemur upp.  Þetta hefur ekki áhrif á hljóðið sem heyrist þegar ýtt er á takka, það heyrist alltaf.

Sjálfkrafa niður

Ef þessi stilling er eitthvað annað en 0, þá bíður færavindann, eftir að hafa komið upp með fisk, í þann tíma (í sekúndum ) áður en hún fer svo sjálfkrafa niður aftur. Þessi eiginleiki er gerður óvirkur með því að hafa þessa stillingu stillta á 0.

Endursetning

Ef þú lendir í ógöngum og hefur tapað áttum innan um allar stillingarnar getur þú endurstillt færavinduna með því að nota möguleikann ENDURSETNING. Allar stillingar fara þá í grunnstillingar.