Skjásíða tvö – Veiðistillingar

Veiðikerfin geyma gildin á öllum stillingum á skjásíðu eitt.  Þau innihalda einnig upplýsingar um gerð keiplags (sjá SKJÁSÍÐA FJÖGUR – Keipgerðir) og stilla ávallt tröppufjölda í tröppukeipi á fimm tröppur (sjá TRÖPPUFJÖLDI stillinguna neðar á þessari síðu).

Veiðikerfin geyma einnig stillingar fyrir niðurkeip þ.e. grunnveiðikerfin breyta alltaf stillingunni HRAÐASTÝRT NIÐURKEIP í gildið 0 (óvirkt) en  EIGIN KERFI geyma gildi þessarar stillingar.

Veiðikerfi er valið með því að flytja bendilinn á táknmyndina fyrir viðkomandi veiðikerfi og ýta á UPP takkann.  Þegar veiðikerfið hefur verið valið birtist táknmynd þess á skjásíðu eitt.

Leitarkerfin eru frábrugðin öðrum veiðikerfum þar sem þau geyma ekki gildi fyrir stillingar eða keiplag.  Ef leitarkerfi er gert virkt notar færavindan þær stillingar sem eru virkar þegar leitarkerfið er valið og leitar þannig að fiski.  Leitarkerfin vinna þannig að keipað er ákveðið oft á hverju dýpi (sjálfgefið er 10) og síðan er færið dregið upp um eina keiplengd.  Þar er aftur keipað og svo framvegis.  Þegar efri mörkum leitarsvæðisins er náð, rennur færið aftur niður í botn og byrjar leit á ný.  Táknmyndir leitarkerfanna sýna leitarsvæðið.  Ef færavindan finnur fisk, setur hún gervibotn þar, gerir leitarkerfið óvirkt og dregur inn fiskinn.  Næst, þegar notandinn lætur færavinduna renna færinu út þá stoppar hún á því dýpi þar sem fiskurinn fannst og byrjar að keipa.

Notandi getur breitt leitarsvæðinu (sjá leitar stillingar á þessari síðu) og fjölda keipa á hverju dýpi.  Síðan LEITARKERFI útskýrir hvernig leitarkerfið virkar.

Þegar leitarkerfi hefur verið gert virkt breytist skjásíða eitt í samræmi við val á kerfi.

Hægt er að gera leitarkerfi óvirkt með því að færa bendilinn yfir táknmynd einhvers leitarkerfis og ýta á NIÐUR takkann eða með því að velja eitt af veiðikerfunum.

DNG

Þetta veiðikerfi er grunnkerfið frá DNG og þetta veiðikerfi er virkt þegar færavindan er tengd við rafmagn í fyrsta sinn.

Ef þú lendir í vandræðum og veist ekki hvaða stillingar eru virkar, getur þú endursett allar stillingar sem varða veiðikerfin með því að velja þetta veiðikerfi.

Botntími

Þessi stilling stýrir því hve langur tími líður milli þess að færavindan athugi fjarlægð til botns, þ.e. finnur botn og byrjar að keipa í réttri fjarlægð frá honum.  Hvert þrep í þessari stillingu jafngildir 10 sekúndum.  Gildi þessarar stillingar er hægt að hafa frá 0 til 99 sem jafngildir 10 sekúndur til 16,5 mínutur.  Grunnstillingin er 6 þ.e. ein mínúta.  Ef botntíminn er stilltur á 0 þá mun færavindan athuga fjarlægð í botn í hverju keipi.

Þessi stilling getur verið mjög mikilvæg þegar veiddur er botnfiskur.  Mjög algengt tilfelli er þegar fiskur safnast saman við botnbrún, t.d. á kantbrún ef bátinn rekur úr grunnum sjó yfir á meira dýpi þá breytist fjarlægðin í botninn mjög snöggt og ef fjarlægðin í botninn er ekki athuguð reglulega þá væri færavindan oftast nær að keipa langt frá botninum.

Biðtími

Segir til um þann tíma sem færavindan bíður í efstu stöðu á keipi. Þegar þessi stilling er ekki núll, stoppar færavindan eftir hvert uppkeipi og bíður í þann tíma sem þessi stilling segir til um.  Síðan framkvæmir færavindan eitt keipi og bíður aftur.  Í hverju uppkeipi er athugað hvort fiskur hafi bitið á.  Þetta heldur áfram þar til fiskur er á krókunum eða einhver önnur tímatengd virkni kemur inn t.d. botntími sem er hér á þessari síðu eða rek sem er hér neðar.

Einnig er hægt að láta færavinduna stoppa niðri eftir hvert keip, það er gert á skjásíðu 4 undir BIÐTÍMI NIÐRI aðeins neðar á þessari síðu. Þessar stillingar geta verið heppilegar ef veitt er með beitu. Mælieiningin á þessari stillingu eru sekúndur og sviðið er frá 0 og upp í 99.

Tröppukeip

Þetta kerfi er svipað beituveiðinni en í stað þess að keipa upp og niður, þá keipar færavindan upp í ákveðnum fjölda skrefa (sjá TRÖPPUFJÖLDI hér aðeins neðar á síðunni) og bíður aðeins við hverja upp hreyfingu.  Þegar upphreyfingunni er lokið rennir færavindan færinu aftur niður á það dýpi þar sem fyrst var keipað og byrjar upp á nýtt.

Bremsa

Þetta kerfi er frábrugðið hefðbundnu kerfi að því leiti að færavindan er ekki keyrð út heldur er mótorinn látinn halda lítillega á móti og sakkan látinn draga línuna út. Það hvað mótorinn heldur mikið á móti er hægt að stilla á samskonar táknmynd á skjásíðu fimm. Þegar þetta kerfi er notað er slakaskynjari ekki notaður heldur er þess í stað botn fundinn með því að sjá hvenær línan hættir að renna út.

Rek

Þessi stilling er notuð við aðstæður þar sem rek bátsins er mikið.  Færavindan dregur þá færið upp reglulega og sendir það niður aftur.  Þetta er gert til þess að tryggja að línan reki ekki of langt frá bátnum á meðan fiskurinn er undir honum.

Leirbotn

Ef botninn sem veitt er yfir er mjúkur (leir eða sandur) festist sakkan oft í honum þegar færavindan finnur botn og færavindan telur þar með að fiskur sé kominn á ef þessi stilling er ekki notuð.  Ef stillingin er ekki 0 er fisknæmið gert óvirkt í fyrsta hring uppkeips eftir að botn er fundinn.

Vanalega er 1 nægjanlegt gildi þessarar stillingar.  Því hærri tala, því lengra dregur færavindan færið upp frá botninum áður en hún athugar hvort fiskur sé á.  Í raun jafngildir hvert þrep stillingarinnar einum hring á girnishjólinu.  Sem dæmi, á stillingunni 3 þá athugar færavindan ekki hvort fiskur sé á fyrr en hún hefur dregið línuna inn um sem nemur þrem hringjum á girnishjólinu eftir að sakkan hefur náð botni.

Grunnstilling við ræsingu er 0 (óvirkt).

Botn næmni

Stillir tímann í 1/30 pörtum úr sekúndu sem líður frá því að slaki kemur og þangað til botn er skynjaður. Botn næmnis stillingin er nauðsynleg til þess að færavindan vinni rétt.  Með því að fylgjast náið með slakanum á línunni þá er mögulegt að stjórna útrennslinu og segja til um hvort sakkan hefur náð botni. Hægt er með þessari stillingu að lengja og stytta þann tíma sem slaki þarf að vera svo það skráist sem botn.

Línan er þrædd í gegnum lykkjuna á slakaskynjararminum og þegar strekkt er á línunni, þá dregur hún arminn niður.  Hins vegar þegar slaki er á línunni, þá dregur gormurinn sem er festur við slakaskynjararminn hann aftur upp og þannig veit færavindan að það er slaki á línunni.  Þess vegna er mjög mikilvægt að slakaskynjararmurinn geti hreyfst óhindrað.

Þessi stilling stýrir næmni færavindunnar fyrir botni.  Því hærri sem talan er því lengri tíma verður slakinn að vera á línunni áður en færavindan merkir það sem botn.  Aðgerðin ENDURSETNING setur þessa stillingu á 40, sem er grunnstillingin.

Með gildið stillt á 1 er færavindan nokkuð snögg að taka slaka á línunni sem botni.  Þetta er þægilegt ef mikið er af grjóti eða hrauni á botninum þar sem hættan á því að sakkan festist í botninum verður lítil.

Hins vegar þá getur það verið óhagkvæmt þegar sjórinn er úfinn.  Þegar báturinn vaggar á öldunum þá getur, öðru hvoru, orðið slaki á línunni jafnvel þó að sakkan hafi ekki náð til botns.  Í þessum tilfellum er nauðsynlegt að hækka þessa stillingu.  Í flestum tilfellum er nægjanlegt að hafa hana í kringum 10.

Þegar lítill fiskur bítur á færið (sem er minni en valið fisk næmni) og færavindan heldur áfram að keipa þá verður niðurkeipið tregara en ella þar sem fiskurinn streitist við niðurtogi sökkunnar.  Í þessari stöðu kemst færavindan stundum að þeirri röngu niðurstöðu að botni sé náð.  Þetta lítur út eins og færavindan hækki sig í sjónum í hverju keipi.  Lausnin er sú að hækka þessa stillingu.  Þetta hefur þó þann galla að viðbragstíminn er lengri þegar færið kemur í raun og veru í botn.  Þessi bið getur valdið því að sakkan tapist þegar veitt er á grýttum botni, t.d. á hraunbotni.

Tröppufjöldi

Þessi stilling er fyrir fjölda trappa í tröppukeipi.  Grunnstillingin er 5.

Biðtími niðri

Þegar þessi stilling er ekki 0, stoppar færavindan eftir hvert keipi og bíður í þann tíma sem þessi stilling segir til um. Þetta er sama stilling og er á skjásíðu eitt í upphafsstillingum.

Biðtími uppi

Þessi stilling svipar mjög til stillingarinnar hér á undan nema þessi stillir biðtímann uppi.