Skjásíða eitt – Upphafsstillingar

Fisknæmi

Fisknæmið er notað til að ákvarða hversu mikil þyngd (þyngd fiskanna á krókunum) þarf að koma á færið til þess að færavindan dragi aflann sjálfkrafa upp.  Því hærra sem fisknæmið er stillt, því meiri verður þyngd fiskanna að vera áður enn færavindan dregur þá inn.

Vindan mælir (í hverju keipi) hversu mikið afl þarf til að draga línuna og ber það saman við gildi sem reiknað er út frá fisknæminu.  Ef aflþörfin er meiri er línan dregin inn.  Ef fisknæmið er stillt of lágt (miðað við þyngd sökkunnar) kemur færavindan upp með mjög smáa fiska eða jafnvel þó enginn fiskur sé á færinu.

Fisknæmis stillingin hefur gildi frá 0 til 16.  Upphafsstillingin er 8.

Athugið:  Þegar veiðikerfin voru gerð var gert ráð fyrir að 2 kg sakka væri notuð og fisknæmið stillt með tilliti til þess.  Ef hins vegar léttari sakka er notuð, þá þarf að lækka fisknæmið í samræmi við það.  Á sama hátt þarf að hækka fisknæmið ef þyngri sakka er notuð.

Upptogsafl

Þessi stilling stýrir upptogsaflinu þegar færið er dregið inn.  Færavindan reynir að halda stöðugu átaki á færinu.  Það þýðir að hef lítil þyngd er á færinu þá er hraðinn mikill.  Hins vegar ef mikil þyngd er á færinu þá er hraðinn minni.

Þessi hegðun færavindunnar er mjög mikilvæg þegar veitt er í úfnum sjó þar sem hún minnkar líkurnar á því að fiskar losni af þegar báturinn vaggar á öldunum.  Ástæðan fyrir því er að jafnvel þó báturinn vaggi, þá er fiskurinn dreginn á svo til jöfnum hraða upp úr sjónum.

Hærri tala þýðir fastara tog og þar af leiðandi meiri upptogshraða.  Færavindan hægir síðan á sér á síðustu metrunum áður en hún stöðvast þegar línan er öll dregin inn.

Ef færavindan er við upptog, bendillinn blikkar ekki og ýtt er á UPP takkann þegar dýptin er orðin núll þá eykur færavindan hraðan í fullan upptogs hraða.  Þessi möguleiki er notaður þegar setja þarf línuna á girnishjólið í fyrsta skiptið (það er ekki varla gerlegt að vefja 500 metrum af girni upp á girnishjólið á 50 rpm).  Næst þegar þú ýtir á STJÓRN takkann þá stöðvast færavindan.

Upptogs stillingin hefur gildi frá 0 til 99 en er grunnstillt á 50.  (sjá einnig í AFLSTUÐULL á þessari síðu).

Keipafl

Kraftinum í keipi er haldið stöðugum.  Það þýðir að það er ekki hægt að halda sama hraða í keipi þar sem hraðinn er háður því hversu mikil þyngd er á færinu (hversu mikill fiskur er á).  Því meiri þyngd því minni hraði.  Því hærra sem gildi þessarar stillingar er því meiri kraftur er notaður í uppkeip.

Gildið getur verið á milli 0 og 79 en grunnstillingin er 10.

Athugið:  Ef þyngdin á færinu er meiri en svo að færavindan geti snúið girnishjólinu þá mun hún alltaf taka því sem svo að fiskur sé á, sama hversu hátt fisknæmið er stillt.

Keiplengd

Þessi stilling segir til um hversu langt hvert keip á að vera. Hvert þrep samsvarar u.þ.b. 0,2 metrum (0,66 fet, 0,11 faðmar) eða það eru 5 þrep/m (3 þrep/ft, 9 þrep/fa).  Þar sem þvermál hringsins á girnishjólinu fer eftir magni línunnar á hjólinu þá eru þessar stærðir ekki mjög nákvæmar.  Ef þú notar langa línu og ert að veiða á litlu dýpi, er hvert þrep örlítið stærra en 0,2 m.  Hins vegar ef þú ert að veiða á miklu dýpi og það er næstum ekkert eftir af línunni á girnishjólinu þá er þvermálið lítið og þar af leiðir er hvert þrep nokkuð minna en 0,2 m.

Keiplengdar stillingin hefur 99 þrep og getur þannig verið frá 0 til 19,8 m (65 ft, 10,8 fa).  (sjá einnig í EINING á þessari síðu)

Grunnmál

Grunnmál setur lágmarks fjarlægð sökkunnar frá botni í hverju keipi.  Í hvert sinn sem sakkan nær botninum þá dregur færavindan línuna inn sem nemur þessari lengd eftir því hvert gildið er á þessari stillingu.  Þrepin eru þau sömu og í keiplengdinni.