Inngangur

Ágæti viðskiptavinur,

Það er okkur sönn ánægja að bjóða þig velkominn í hóp þeirra fjölmörgu sjómanna sem af hagsýni hafa valið R1 tölvustýrðu færavinduna í báta sína.  Um leið viljum við beina athygli þinni að nokkrum atriðum sem að okkar mati, gætu reynst þér gagnleg.

Þessi bæklingur lýsir uppsetningu færavindunnar, hvernig færavindan er tengd rafkerfi bátsins og einnig hvernig hún er stillt og notuð.  Gefðu þér góðan tíma og lestu bæklinginn frá upphafi til enda.  Það er okkar reynsla, að því meiri tími sem tekinn er í að kynna sér efni hans, því færri vandamál hafa komið upp og betur hefur tekist að nýta þá öflugu möguleika sem færavindan býður upp á.  Jafnvel þó að þú notir ekki þessa möguleika í byrjun, þá veist þú af þeim sem svo auðveldar þér að nýta þá síðar, þegar þú þarft á þeim að halda.

R1 færavindan þín hefur farið í gegnum strangt gæðapróf þar sem allar stillingar voru prófaðar undir margs konar álagi.  Þá var hún vatns- og loftþrýstiprófuð.  Við erum sannfærðir um að færavindan muni þjóna þér vel um ókomin ár.

Að lokum viljum við, hjá DNG, óska þér til hamingju með nýju R1 færavinduna og við höfum þá trú að hún eigi eftir að færa þér margan góðan feng á komandi árum.

Kær kveðja, 

DNG ehf.

Naustatangi 2, 600 Akureyri, Ísland

Sími: (+354) 460 2900

Netfang: dng@dng.is